Ferilskrá/CV

EN: Thorlaug Borg Agustsdottir’s profile on LinkedIn

Hér að neðan er yfirlit um flest það sem ég hef starfað frá því ég komst til vits og ára en listinn er langt frá því tæmandi…þetta endar líklega í ævisögu.

Ég ólst upp í Reykjavík á veturna og úti á landi á sumrin, ýmist í sveit eða með foreldrum mínum á jarðfræði-ferðalögum um landið. Ég byrjaði snemma að vinna; í vist, við blaðaútburð og var komin í fasta vinnu 14 ára meðfram Réttó. Á unglingsárunum vann ég í humri og við allt mögulegt hjá Bjarna í Brauðbæ. Eftir útskrift úr FG lærði ég stjórnmálafræði við HÍ og kynntist þar Internetinu sem hrinti af stað starfsferli í vefiðnaðinum, þar sem ég vann lengst af sem stjórnandi.

 

Árin 2010-2013 gékkst ég undir þrjár langar og strangar krabbameinsmeðferðir í Kaupmannahöfn sem umturnuðu lífi mínu og fjölskyldunnar. Eftir margar ólýsanlega erfiðar orustur kom krabbinn til baka 2012 og ég hóf líkandi meðferð sem miðaðist við að framlengja líf mitt um “nogen halv år”. Ég neitaði að gefast upp frá drengjunum mínum og leitaði lausna út fyrir hefðbundna heilbrigðiskerfið. Til hamingju bar ein óhefðbundna leiðin* árangur svo ég hef nú verið laus við krabbamein í um 7 ár og flokkast læknisfræðilega undir “gangandi kraftaverk”. 

Eins og gefur að skilja hafði þessi barátta stórkostleg áhrif á lífið og líkamann en þrátt fyrir skerta starfsgetu fæ ég ekki af mér að setjast í helgan stein. Þessi í stað einbeiti ég mér að endurhæfingu, áhugamálunum og net-fræðistörfum.


 

Menntun

MA International Affairs – Specialization: Cyber-IR

Í maí 2019 skilaði ég (loksins) meistaratitgerðinni minni sem heitir því hljómþýða nafni Cyberthreats to Democracies – Constructed Dangers to Democratic Functions. Ferðalagið var langt, ég tók ríflegan helming af náminu við Kaupmannahafnarháskóla og kláraði svo skylduna við HÍ eftir að ég flutti aftur heim. Meðaleinkunn 8,5.

Verkefnið fjallar um ‘asymmetrical cyber warfare’ sem stendur yfir í netheimum og hefur haft í för með sér lúmskar samfélagsbreytingar þ.e. hvernig Rússar hafa haft áhrif á kosningar í Vestrænum lýðræðisríkjum með seríu af netárásum og áróðursmaskínu sem dælir út fréttum og auglýsingum á samfélagsmiðlum, hvernig áróðurinn birtist og hvaða áhrif það hefur haft.

Ég er ánægð með ritgerðina. Ferlið og verkefnið sannaði fyrir mér að áfallahrinan hefur ekki rænt mig dómgreindinni eða getunni til að skila góðu verki. Það sem skiptir mig samt mestu máli er að þekkingin nýtist og sé partur af samtali við annað fólk með svipað sérlunduð áhugamál. 

Umsögn prófdómara:
Metnaðarfull og vönduð heimildaritgerð. Höfundur tekur fyrir mjög “aktúelt” efni sem, eðli máls samkvæmt, ekki liggja fyrir margar fyrri rannsóknir á. Þeim fyrri rannsóknum sem er þó til að dreifa gerir höfundur vel skil. Skilgreinir viðfangsefnið vel og afmarkar, og lýsir með skipulegum hætti öllum hliðum þess. Setur efnið í mjög sterkt kenningalegt samhengi. Rannsóknaspurningarnar eru þannig skýrar og kenningarammi þeirra vel skilgreindur. Skipulag ritgerðarinnar er rökrétt og úrvinnslan vönduð; í henni er viðfangsefnið rækilega speglað í viðeigandi kenningalegu samhengi. Tilvísanir í relevant rannsóknir alls staðar þar sem það á við. Mikil heimildavinna að baki með öðrum orðum, eins og heimildaskráin sjálf ber líka vitni um.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við þetta: sannfærandi. Rannsóknaspurningum svarað og lesandinn skilinn eftir með þá tilfinningu að hafa öðlast dýpri innsýn í og skilning á því sem sennilega eru stærstu áskoranirnar sem vestrænt lýðræðisskipulag stendur frammi fyrir í hinum alnetstengda heimi 21. aldar. Þó má spyrja hvort e.t.v. sé gert of mikið úr árangrinum sem undirróður Rússa hafi skilað, og væntingum um „mutually assured destruction“-stríðs á vettvangi netheima.
Helztu gallar eru minniháttar: smáhnökrar á málfari og réttritun og á textauppsetningu.
Einkunn: 9,0.


Stjórnmálafræðingur, BA Stjórnmálafræði

Útskrifuð frá Háskóla Íslands, janúar 2007

Hef lokið BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands með fyrstu einkunn. Ég hafði lokið flestum áföngum 1995-1997 og tók mér svo leyfi til að vinna í vefgeiranum. Ég lauk svo síðustu áföngunum meðfram vinnu og skilaði lokaverkefni um Haftatímabilið 1930-60 sem fjallaði um áhrif haftanna á þjóðarhag, stjórnmál og stjórnmálamenningu m.ö.o. hvernig gjaldeyrishöft sköpuðu andrúmsloft spillingar og fyrirgreiðslu á Íslandi. 18 mánuðum síðar var Ísland aftur í gjaldeyrishöftum en ég tek enga ábyrgð á því.


Önnur menntun

– Stúdent af Fjölmiðlabraut frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ

– Cognition and Communication – Copenhagen University, MA

Nám sem ég þurfti að yfirgefa vegna veikinda og á ólokið í Danmörku. Ég las fyrsta árið en lauk engum prófum.

Allrahanda námskeið

Hef lokið óteljandi smærri námskeiðum, flestum í net- og tæknitengdum hlutum s.s. viðmótshönnun, upplýsingaarkitektúr, Photoshop, netmarkaðssetningu, Office pakkanum og svo mætti lengi telja.

Veturinn 2019 lauk ég námi í Meðferðardáleiðslu frá Dáleiðsluskóla Íslands sem ég nýti fyrir sjálfa mig og aðra.Atvinna

Skóla og frístundaráð Reykjavíkur

Febrúar 2017 – júní 2018

Fulltrúi Pírata í Skóla og frístundaráði Reykjavíkurborgar. Hér má líta “Lady boss” skrifborðsstólinn af AliExpress sem hallar alveg út af og gerði mér þessa nefndar”setu” mögulega.

Ég er sérstaklega stolt af vinnu starfshóps sem ég stýrði um framtíð Dagforeldrakerfisins og skilaði af sér niðurstöðum í júní 2018. Starfshópurinn mótaði róttækar tillögur sem við teljum nauðsynlegar til að dagforeldrakerfið lifi af og verði sá valkostur sem borgarmeirihlutinn og flestir stjórnmálamenn vilja að hann sé.

Ég er sérstaklega stolt af þessari vinnu sem við lögðum fyrir nýtt Skóla og frístundaráð í júní 2018.

Upplýsingasíða ráðsins


 

Hafnarstjórn

Júní 2014 – júní 2018

Fulltrúi Pírata og Reykjavíkurborgar í stjórn Faxaflóahafna. Sérlega skemmtilegt og uppbyggilegt starf sem er ekki síst Gísla hafnarstjóra og hans fólki að þakka. Hin í stjórninn voru svo heldur ekki sem verst 😉
Heimasíða Faxaflóahafna


Mannréttindaráð Reykjavíkur

Júní 2014 – janúar 2017

Áheyrnarfulltrúi Pírata í mannréttindaráði Reykjavíkur.
Upplýsingasíða ráðsins

 

 

Fulltrúi í starfshóp um opin gögn og birtingu fjárhagsupplýsinga ríkisins – Fjármálaráðuneytið

janúar 2013 – apríl 2013

Fulltrúi fjármálaráðherra í sameiginlegum starfshóps Forsætis- og Fjármálaráðuneytis. Skipuð af Katrínu Júlíusdóttur þáverandi Fjármálaráðherra.
Lokaskýrsla starfshópsins (pdf)

 

Sérfræðingur í upplýsingamiðlun – Forsætisráðuneytið

2008 frá hruni – 2009 fram að flutningi til Kaupmannahafnar
Starfaði í Forsætisráðuneytinu í gegnum þrjár ríkisstjórnir veturinn 2008-2009 vegna efnahagshrunsins. Starfaði náið í teymi með upplýsingafulltrum Forsætisráðuneytisins og Utanríkisráðuneytis í ný-upplýsingamiðlun og öðrum verkefnum sem mér voru falin á þessum krefjandi tíma.

 

 

Forstöðumaður netviðskipta 365 miðla samsteypunnar

2007 – 2008
Yfirmaður netmála 365 Miðla. Ábyrgðir fólust meðal annars í daglegum rekstri og stjórnun vefdeildar, netviðskipta og vefja fyrirtækisins sem má skipta í þrennt; vefmiðla/vefvörur sem voru m.a. rekstur visir.is, blogcentral.is og gras.is, í öðru lagi vefi miðlanna m.a. stod2.is, bylgjan.is, fm957.is o.s.frv. og í þriðja lagi sölu og þjónustu í gegnum vef.

 

Hagnýt vefstjórn – Endurmenntunarstofnun HÍ

2003 – 2005
Námskeiðahald í Hagnýtri vefstjórn hjá Endurmenntun Háskóla Íslands ásamt Sigrúnu Guðjónsdóttur þáverandi forstjóra Tæknivals. Við sáum í sameiningu um skipulagningu, samning námsgagna, kennslu og eftirfylgni.

 

Össur hf. – Yfirmaður vefmála / Global Webmaster

2001 – 2007
Yfirmaður vefmála Össurar á alþjóðavísu og stýrði þeim frá A til Ö. Vann í höfuðstöðvunum á Grjóthálsi og á starfsstöðvum Össurar um allan heim.

Stefnumótun, áætlanagerð, verkefnastjórn, samningagerð, innleiðing nýrra fyrirtækja, markaðssetning, forritun, myndvinnsla, tæknistjórn o.m.fl.

Össur vann verðlaun IR Magazine fyrir bestu upplýsingagjöf til fjárfesta á Íslandi fjórum sinnum á þessu tímabili og þótti standa framúr í alþjóðlegum samanburði.

Tilnefnd til Íslensku vefverðlaunanna fyrir ossur.is.


Aðstoðarframkvæmdastjóri Innn

 2000 – 2001
Aðstoðarframkvæmdastjóri Innn og hægri hönd framkvæmdastjóra í 50% starfi. Yfirmaður 11 starfsmanna í upphafi og 26 þegar ég hætti. Sá um daglegan rekstur í samstarfi við yfirmenn allra deilda og verkefna, samningagerð við birgja og starfsmenn og annað sem þarf til að reka fyrirtæki.


Verkefnastjóri hjá Innn

Haust 1999 – Vor 2000
Verkefnastjóri og tengiliður yfir stærstu verkefnum fyrirtækisins. Í starfi mínu vann ég að mótun vefstefnu og verkefnastjórn á uppsetningu vefja fyrir viðskiptavini fyrirtækisins s.s. SPRON, Búnaðarbankann, Kaupþing, Samvinnuferðir, Landlækni, Össur hf. ofl.


Pistlahöfundur 

Vann með háskólanámi sem pistlahöfundur. Rita um vefmál í Kjarnann og var fastur pistlahöfundur hjá Tölvuheim á upphafsárum tímaritsins. 


 

Félagsstörf


2013 til ’18 Ýmis verkefni og sjálfboðastörf hjá Pírötum

Ég var ein af stórum hópi Pírata sem starfaði í sjálfboðavinnu fyrir flokkinn og sinnti fjölbreyttum verkefnum á fyrstu 5 árunum frá stofnun.
2016 -17 var ég fulltrúi framkvæmdaráði og var um árabil ábyrgðarmaður vefhóps, með þeim verkefnum sem fylgja. 2014 -15 var ég formaður Pírata í Reykjavík og hef þess fyrir utan leyst þau verkefni þurfti að vinna á hverjum tíma eins og aðstæður mínar hafa leyft.


2005 – 2007 Formaður SVEF samtaka vefiðnaðarins,

Ég var einn af stofnendum samtakanna nokkrum árum fyrr þar sem við byrjuðum nokkur að hittast sem óformlegur hópur sem fór að skiptast á faglegum upplýsingum og fannst að óformlegur félagsskapur af fagmönnum væri mun betur til þess fallinn að veita Vefverðlaun Íslands heldur en einkafyrirtæki.


Ritstjórn Stúdentablaðs Háskóla Íslands 1996-1997

Þetta var skemmtilegur tími og ég fékk mjög mikilvæga reynslu í blaðaútgáfu í ritstjórn stúdentablaðsins.


Stúdentaráð Háskóla Íslands 1996-1998,

sat í stúdentaráði sem varamaður og svo aðalmaður fyrir Vöku 1996-98. 


Morfís / Morgron

Þjálfari og dómari í Mælsku og rökræðikeppnum framhaldsskólanna og Morgron, mælsku og rökræðukeppnum grunnskólanna. Ég þjálfaði m.a. Kvennaskólann til úrslita 1997 og keppti til úrslita fyrir FG 1993-94.


Formaður Politica, félags stjórnmálafræðinema 1996-1997

Við fórum í námsferð til USA þegar Bill Clinton var kosinn forseti aftur. Við söfnuðum sjálf fyrir ferðinni sem var ógleymanleg.


Þrautavarafulltrúinn…í húsfélaginu, bekkjarfulltrúinn og foreldrafélaginu

Ég er sem betur fer búin að læra að segja nei, en skorast ekki undan sameiginlegum verkefnum þegar á þarf að halda.