Gangandi kraftaverk

Eitt af því sem haft mest áhrif á líf mitt er það að lifa af þrjár orustur við krabbamein. Það er ástæða fyrir því að krabbameinsmeðferð kallast “barátta” því þetta, eins og margir aðrir alvarlegir sjúkdómar, var svo sannarlega barátta upp á líf og dauða.

Ég fór í gegnum þrjú stríð á árunum 2010 til 2014, nær allt á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og svo á líknardeildinni á Bispebjerg sjúkrahúsinu í Köben eftir að ég hóf líknandi meðferð í þriðju og síðustu orustunni. Á þeim tímapunkti hafði fengið að heyra frá læknunum að þeir gætu ekkert gert fyrir mig meira og ég mætti búast við að lifa “einher hálf ár” ár á lífi með drengjunum mínum.

Ég gat ekki sætt mig við þessa niðurstöðu og fór að leita að enn fleiri lausnum og byrjaði að taka nokkur tilraunalyf sem ég fann í gegnum óvænta tengiliði og Internetið. Öllum að óvörum byrjaði eitt lyfið (Orasal frá Perfect Balance) að virka og á nokkrum mánuðum var ég laus við krabbameinið – en ekki skaðann sem meinin og meðferðirnar hafa haft á líkamann minn.

Læknarnir og teymið mitt hafa margoft kallað mig gangandi kraftaverk sem þessi árangur er að mörgu leiti, en það tók mig dálítið langan tíma að átta mig á hvað það hefur tekið mikla vinnu og aga að halda nokkurnvegin sönsum og stefnu í gegnum þá ringulreið sem veikindin höfðu á mig og mína nánustu. Það að lifa af er líklega stærsta afrek lífsins, að börnum og öðrum ólöstuðum. Þessvegna skiptir það mig máli að það skipti máli.

Ég ræddi baráttuna við krabbann í einu sjónvarpsviðtali sem Karen Kjartansdóttir tók við mig 2013. Og svo fór ég óvænt aftur í viðtal út af “gangandi kraftaverkinu” hjá Ásdísi Olsen á Hringbraut 2019. Það var að mörgu leiti heilandi að horfa farinn veg og sjá hvað hefur mikið áunnist.

Viðtal við Þórlaugu Ágústsdóttur í Íslandi í dag

Undir yfirborðið með Ásdísi Olsen

Það sem ekki var vitað þegar ég greindist með krabbamein var að ég hafði þá undirliggjandi sjaldkirtilssjúkdóm (Graves disease, ofvirkur skjaldkirtill) sem var að valda miklu af þeim “aukaverkunum” sem ég fann fyrir. Nú er búið að ná stjórn á skjaldkirtlinum og ég opinberlega orðin fyrrverandi krabbameinssjúklingur og komin með sömu líkur og hver annar á að fá aftur krabba.

Rétt eins og ég sætti mig ekki við að deyja úr krabbameini þá sætti ég mig heldur ekki við að verða sjúklingur út lífið, þó ég sé krónískt veik á mælikvarða þeirra sem hafa fulla heilsu þá get ég ekki látið þennan merkimiða eða part af lífinu vera ráðandi fyrir það hvernig ég eða aðrir sjá mig.

Sem færir mig að samfélagsmálum sem ég hefði aldrei spáð í annars.
Ég finn fyrir verulegum fordómum fyrir öryrkjum, sérstaklega þeim sem ekki flokkast sem lífeyrisþegar, þeir eru ekki álitnir heilar fullgildar manneskjur. Staða sjúklingsins og staða öryrkjans er staða hins valdalausa og það hefur fært mér ótrúlega reynslu að fá að kynnast því að missa valdið yfir sjálfri mér. Að hafa prófað margskonar toppa og botna, og rísa aftur upp til að segja frá því.


Endurhæfingin

Bataferlið er eins og fjall með stalla. Það tekur á að klífa bergið en það er ólýsanlega gott að komast upp á nýjan stall og njóta árangursins.

Ákkúrat núna stend ég á góðum stalli, búin að klífa margar tröppur í blokkinni heima hjá mér til að ná úthaldi og styrk í fæturna. Ég fann líka hvernig það að vinna MA verkefnið kom mér aftur í vinnustuð og hvað mig langar núna að halda áfram að bæta við mig þekkingu og vinna verkefni ef tækifærin bjóðast.

Ég veit að enn er langur vegur og margar tröppur fyrir höndum en það hvetur mig áfram að sjá hvað liggur mikið að baki. Lífið er til þess að njóta.