Ákvörðun um framboð

Thorlaug Borg Agustsdottir

Kæru félagar, ég hef tekið ákvörðun um að sækjast eftir 1. sæti á framboðslista Pírata fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík næsta vor.

Mitt stærsta áhugamál og markmið hefur lengi verið að breyta heiminum og síðustu 5 árin hef ég gert það með Pírötum þar sem ég hef verið sjálfboðaliði frá stofnun flokksins – og er enn 🙂 Ég hef bæði starfað sem ‘Pírati á plani’ og var kjörin meðlimur í Framkvæmdaráði 2016-17, kafteinn Pírata í Reykjavík 2014-15 og skipaði 3. sæti á framboðslista Pírata til borgarstjórnar Reykjavíkur 2014 ásamt Halldóri Auðar Svans, sem hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur.

Sem fulltrúi Pírata í sveitarstjórnarmeirihlutanum hef ég setið síðustu ár í stjórn Faxaflóahafna, er áheyrnarfulltrúi Pírata í Skóla- og frístundaráði og varamaður Halldórs í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði. Ég hef að baki marga stóra slagi og er mætt endurnærð – og bakveik – til leiks. Sem betur fer hef ég komist að því undanfarið að bakveiki er eitthvað sem er hægt er að vinna sig framhjá þegar maður vinnur með höfðinu 🙂

Kæru Reykvíkingar, ég tel okkur standa saman á tímamótum og býð ykkur einlæglega alla krafta mína í uppbyggingu á gagnsærra og betra samfélagi.