Fé fylgi þörf

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. október 2017

Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu við íbúana, þau eru nærsamfélagið og hafa skyldur um að framkvæma ákveðna hluta af grunnþjónustunni við borgarana s.s. að sjá um rekstur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, tómstundir, félagslegt húsnæði, gatnaframkvæmdir o.s.frv.

Við Píratar viljum að allir séu virkir þátttakendur í samfélaginu og gefa fólki tækifæri til að aðlaga “bæinn sinn” að þeim áherslum sem fólkið á svæðinu vill. Við viljum efla lýðræðið og þátttöku borgaranna í stjórn landsins, í stefnumótun og rekstri sveitarfélaganna, og að sveitarfélög hafi rúmar heimildir til að framkvæma hluti sem íbúar þeirra vilja gera, innan skynsamlegs ramma sem Alþingi setur.

Verkefni hafa færst til sveitarfélaga af því að það gefur betri raun að hafa ákveðna þjónustu nær borgurunum og reynslan sýnir að flest sveitarfélög hafa náð að mæta þörfum íbúanna betur en ríkið gerði áður.

Sveitarfélög hafa fengið málaflokka og verkefni úthlutað frá ráðuneytum sem áður sinntu þeim, en ólíkt ráðherra sem situr í skjóli meirihluta á Alþingi getur meirihluti í sveitarstjórn ekki ákveðið að hækka álögur, þær eru bundnar í lögum.

Tekjur sveitarfélaganna eru fyrst og fremst útsvar, m.ö.o. skattur sem Alþingi hefur ákvarðað að megi vera á bilinu 12,44% til 14,52% og langflest sveitarfélög innheimta að fullu og ríkið fær ríflega þóknun fyrir innheimtuna. Þar að auki koma tekjur af innheimtu fasteignaskatts, framlögum úr jöfnunarsjóði sveitarfélaganna og svo af þjónustugjöldum fyrir veitta þjónustu s.s. leikskóla, sorphirðu, heimaþjónustu o.s.frv. Sveitarfélögin eru þannig bundin fjárhagslega af því sem Alþingi ákveður og því sem fólk getur borgað fyrir þjónustuna – og á sama tíma bundin því að uppfylla skyldurnar sem Alþingi setur.

Vandamálið er að þegar verkefni færðust yfir til sveitarfélaganna fóru ekki nægir peningar með til að sinna verkefnunum. Þetta hafa sveitarfélögin árlega minnt ríkið á við gerð fjárlagafrumvarps og víðar en hafa ekkert neitunarvald. Þennan fjárskort þekkja ráðherrar mætavel og má lesa í mýmörgum skýrslum um þessi mál í hluta eða heild og má lesa í varfærnislegum orðum ráðherra frá 2005, “Hugsanlega hefur löggjafarvaldið verið of viljugt til að færa sveitarfélögunum aukin verkefni án þess að gera þá kröfu á móti að sveitarfélögin gætu axlað nýjar skyldur.”

Ástandið hefur skránað en enn fylgir ekki nægilegt fjármagn til þess að hækka laun þar sem það þarf og standa við skuldbindingarnar. Við Píratar viljum gefa sveitarfélögunum svigrúm til að leysa verkefnin sem fyrir þau eru lögð og taka upp ný ef íbúunum sýnist svo og fjármagn finnst.

Vegna ónógra framlaga hafa sum sveitarfélög ákveðið að sinna ekki grunnþjónustu við hluta íbúanna vegna þess að meirihluta bæjarstjórnar þykir það of kostnaðarsamt. Þá hafa þurfandi íbúar ekki um annað að velja en að flytja, fara í kostnaðarsamt dómsmál við bæjarfélagið til að sækja rétt sinn eða flytja í bæjarfélag þar sem þjónustan er veitt. Sú þróun hefur átt sér stað síðustu áratugina, að Reykjavík hefur axlað sífellt ríkari samfélagslegar skyldur á meðan önnur burðug sveitarfélög hafa fengið að velta málaflokknum yfir á nágranna sína.

Úr frétt Morgunblaðsins “Borgin ber þungann…”

Það er undarlegt að sum stöndug sveitarfélög sjái ekki til þess að trygga íbúum sínum félagslegar íbúðir þó þörfin sé fyrir hendi. Nýleg könnun á leiguíbúðum sveitarfélaga sýndi að sum sveitarfélög virðast hvorki hafa stefnu í uppbyggingu félagslegs húsnæðis né áætlanir um að hækka hlutfall félagslegra leiguíbúða að neinu marki. Hlutfall félagslegra íbúða fyrir hverja 1000 íbúa reyndist 19,7 í Reykjavíkurborg sem ber höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög á meðan Mosfellsbær hafði fjórum sinnum minna 4,5, Seltjarnarnes 3,5 og Garðabær nær 10 sinnum hlutfall Reykjavíkur, 2,3 félagslegar íbúðir pr 1000 íbúa.

Stefna Reykjavíkur hefur verið að dreifa félagslegum úrræðum jafnt yfir borgina til að búa ekki til svæði þar sem meirihluti íbúanna er á framfærslu hins opinbera. Þetta er skynsamleg og afskaplega íslensk stefna þar sem okkur Íslendingum hugnast vanalega ekki stéttaskipting og reynsla annarra þjóða hefur sýnt að blöndun er best fyrir alla hlutaðeigandi, ekki síst fyrir börn tekjulítilla og tekjumikilla foreldra. Hins vegar eru þau sveitarfélögin sem kjósa að bjóða ekki upp á félagslegt húsnæði að ýta undir stéttaskiptingu með því að vísa fólki einfaldlega frá sér. Dæmi eru um að bótaþegar fái styrk til að flytja í annað bæjarfélag, m.ö.o. að viðkomandi einstaklingi sé greitt fyrir að flytja í annan bæ og þiggja félagslega þjónustu þar.

Alþingi á að tryggja að sveitarfélögin taki á sig félagslegar skyldur og veiti félagsleg úrræði í samræmi við þörf og íbúafjölda, ekki bara til að koma í veg fyrir stéttarskiptingu eftir bæjarfélögum heldur af því að borgararnir hafa lagalegan rétt á þjónustu í heimabyggð.

Helgi Hrafn Gunnarsson, skipar 1. sæti framboðslista Pírata í Reykjavík-N
Þórlaug Borg Ágústsdóttir, fulltrúi Pírata í Skóla og frístundaráði Reykjavíkur

Ýmsar heimildir:

Könnun á leiguíbúðum sveitarfélaga 2016

Endurmat á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk 2015 (pdf)

Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga, niðurstöður könnunar

Yfirlit um fjárhagsleg samskipti ríkis og Reykjavíkur 2014