Yfirýsing af gefnu tilefni

Undirritaðir fulltrúar Pírata í borgarstjórn, aðalmenn í ráðum og nefndum borgarinnar, vilja koma eftirfarandi á framfæri.

Á Kosningaspjalli Vísis í gær var rætt við Jónu Sólveigu Elínardóttur, frambjóðanda Viðreisnar og varaformann flokksins. Þar kom hún inn á reynsluna af því að vinna með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Jóna Sólveig ræddi meðal annars samskiptin við Reykjavíkurborg og um úthlutun á ríkislóðum til borgarinnar hafði hún þetta að segja:

„Sjálfstæðismenn hafa bara ekki viljað tala við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Samfylkingarinnar. Þess vegna hefur ekki verið ráðist í nauðsynlega uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna hefur ekki verið hægt að úthluta þessum lóðum til borgarinnar.“

Hér er á ferðinni gríðarlega alvarlegt mál. Um er að ræða lóðir í eigu ríkisins á svæðum þar sem Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir uppbyggingu húsnæðis samkvæmt aðalskipulagi. Forsenda þess að hægt sé að byrja að byggja þar íbúðir er því að samningar náist milli ríkis og borgar um að borgin fái þær í hendur. Í núverandi ástandi, þar sem er mikil eftirspurn eftir húsnæði, er mjög mikilvægt að allir hafi hraðar hendur og vinni stöðugt og lausnamiðað eftir þeim ferlum sem skipulag byggðar og uppbygging húsnæðis útheimtir. Þarna var ekki einu sinni virkt samtal í gangi og að sjálfsögðu gerist ekkert á meðan svo er ekki. Þessar ríkislóðir hafa ekki reynst bráðnauðsynlegur liður í uppbyggingunni enda er húsnæðisuppbygging í Reykjavík komin á gott skrið án þeirra – en í því ástandi sem við búum við er allt sem er til þess fallið að tefja framtíðaruppbyggingu og tefla henni í tvísýnu að óþörfu hið versta mál.

Að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins dragi vísvitandi lappirnar af því að þeim líkar persónulega ekki við þá sem ráða í Reykjavík er hreinasta svívirða. Það er því miður einfaldlega hárrétt að það fór ekkert að hreyfast í þessum málum fyrr en ráðherrar Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson og Þorsteinn Víglundsson, komu að borðinu og keyrðu samninga við borgina í gegn.

Það er fráleitt að andúð Sjálfstæðismanna á sitjandi borgarstjórn skuli leiða til þess að fjöldi borgarbúa fær ekki þak yfir höfuðið. Það dylst engum sem fylgist með stjórnmálum að þetta er ekki einungis tilfallandi, heldur nánast flokkslína í allt of mörgum málaflokkum. Að samstarfi um hag og heill íbúa í Reykjavík sé kastað á haugana vegna flokkshagsmuna er ólíðandi.

Það er þakkarvert að Jóna Sólveig hafi haft hugrekki til að segja frá þessum samskiptum, enda getur oft verið vandasamt fyrir stjórnmálamenn að vekja athygli á slíkri framkomu vegna trúnaðar í samstarfi milli flokka en þetta mál er þess eðlis að ekki var réttlætanlegt að þegja um það. Réttur almennings til að vera upplýstur um hvernig hlutirnir virka og hvernig ákvarðanir eru raunverulega teknar (eða ekki teknar) er hér mikilvægasta gildið. Nú er augljóst hvar ákvarðanirnar og tregðan liggur og það er nauðsynlegt að bregðast við,

Eitt af aðalsmerkjum Pírata er að við erum tilbúin að vinna með öllum, lausnamiðað í þágu almannahagsmuna. Í Reykjavík hefur þetta gengið vel í samstarfi fjögurra flokka í meirihluta og jafnvel líka oft milli allra flokka. Við pössum okkur eins og við getum á því að setja aldrei einkahagsmuni og flokkspólitíska valdaleiki ofar almannahag. Því miður á þetta ekki við um alla, alltaf – en þannig ætti það að vera. Við þurfum að breyta því og þar eru orð til alls fyrst.

Pólitískir gjörningar þurfa alltaf að vera opnir fyrir aðhaldi landsmanna. Að húsnæði fyrir Reykvíkinga og alla sem þar vilja búa, tefjist af því að Sjálfstæðismönnum líkar illa við borgarstjórann og eru hræddir við að honum gangi of vel er ekki bara óeðlilegt og sjúklegt – heldur er það sviksamlegt athæfi við fólk sem vantar húsnæði og vanvirðing við alla landsmenn.

Halldór Auðar Svansson
Þórgnýr Thoroddsen
Þórlaug Borg Ágústsdóttir
Arnaldur Sigurðarson
Kristín Elfa Guðnadóttir
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Svafar Helgason
Bergþór Heimir Þórðarson Njarðvík
Björn Birgir Þorláksson

Sjá einnig frétt á visir.is