Óþægilegar konur, #metoo og krafan um mannréttindi fyrir alla

Ég er ein af þeim konum sem hef unnið á bak við tjöldin undanfarið að skipulagningu aðgerða vegna kynbundinnar mismununar og ofbeldis, betur þekkt sem #metoo byltingin.

Það er óhætt að segja að vandaður fréttaflutningur og frásagnir kvenna af kynferðisofbeldi undir tagginu #metoo hafi verið þúfan sem velti hlassinu, eða öllu frekar olli því að uppúr kraumaði í reiði kvenna sem allt of lengi hafa þurft að þola óréttlæti og mismunun vegna kyns.

Frásagnirnar af hrikalegri framkomu eru óteljandi og yfirlýsingar og beiðnir kvennahópa um aðgerðir komnar á annan tuginn núna þegar þessi orð eru rituð. Umræðan hefur stigmagnast og fjölmargir  hafa tekið við sér, tekið undir kröfurnar og lýst vilja til aðgerða.

En það gengur ekki allstaðar jafn vel að framkvæma og  stíga næstu skref.

Mér dettur ekki í hu.g að fara að ásaka neina um að draga lappirnar en það er bókað að ekkert batnar ef málum er ekki fylgt eftir því hér eins og annarstaðar þá skiptir vinnan sem á eftir fylgir öllu máli.

Viljinn til breytinga er vissulega stærsta hindrunin á því að tekið sé á vandamálum, en oft skortir fólk líka þekkingu og reynslu til að vita hvað eigi að gera næst – ég met stöðuna sem svo að mikilvægasta verkefnið núna (á verkefnalista Þórlaugar við að breyta heiminum) sé að fylgja málinu eftir og ætla þessvegna að leggja mína krafta í því að aðstoða við það og fylgja eftir næstu mánuðina að orð verði að aðgerðum, (ásamt vinnunni minni í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur og Hafnarstjórn Faxaflóa).

Opinberir aðilar eins og Vinnueftirlitið og Jafnréttisstofa hafa gefið út fræðsluefni, gátlista og verklagsreglur sem einfalda félagasamtökum og fyrirtækjum að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem konur eru að fara fram á til að geta sinnt sínu starfi. Má sem nefna aðgerðaáætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi sem Starfsgreinasambandið lét gera ásamt einblöðungi til fræðslu og bækling Jafnréttisstofu og stærstu stéttarfélaganna um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Í næstu viku förum við nokkrir gamalreyndir stjórnendur í vefbransanum og fyrrverandi formenn SVEF á fund VR til að ræða framkvæmdir á þeim kröfum sem konurnar í okkar hóp fóru fram á að yrðu settar í yfirlýsinguna og framkvæmdar af fyrirtækjum í sínum iðnaði.

Fyrir mér fellur #metoo fullkomlega að píratismanum vegna þess að konur eru að rísa upp og neita að taka ofbeldi og mismunun sem þær hafa orðið fyrir vegna kyns og vegna ójafnra valdahlutfalla á vinnustöðum. Það þýðir ekki að ég álíti að samfélagið sé allt eitt samsæri gegn konum, alls ekki, en það hversu margir samstarfsmenn virðast leyfa sér að koma svona fram við konurnar í kringum sig – og hversu lítið er gert í því þegar svona mál eru tilkynnt – er risastórt kerfisbundið vandamál sem þarf að uppræta.

Konur í Pírötum voru meðal þeirra stjórnmálakvenna sem sendu út yfirlýsingu um miðjan nóvember og kröfðust ábyrgðar á breytingum og aðgerðum og stuttu síðar slógust karlmenn í stjórnmálum í þeirra hóp og sendu út yfirlýsingu, þar á meðal risastór hópur karlkyns Pírata.

Þar með höfðu allir kjörnir fulltrúar flokksins og formenn nær allra aðildarfélaga sent út skýr skilaboð um eftir hvaða grunngildum Píratar vildu starfa. Vonandi fara framkvæmdaráð og trúnaðarráð Pírata í það sem allra fyrst að setja yfirlýsingar flokksfólks og aðgerðir um úrbætur og ferla í forgang, en meðal þess sem farið er fram á er að Píratar taki á eineltisframkomu og gefi það út opinberlega að þeir starfi eftir ofangreindum viðmiðum.