Það er þetta með vatnið

Ég elska vatn. Elska að drekka það, baða mig í því, synda í því, sigla á því, finna það á andlitinu í rigningu. Helst eilítið basískt með vægu steinefnabragði úr fjallalæk.

Get ekki almennilega útskýrt þetta ástarsamband mitt við vatn en stundum þegar ég kafa gleymi ég því að ég get ekki andað undir yfirborðinu og er næstum búin að draga andann… þar til ég rétt næ að stoppa mig af og minna mig á að ég er enn spendýr en ekki fiskur.

Tengt þessari ást minni á vatninu er það að mér líður furðulega illa þegar ég er langt frá sjó. Þegar ég er stödd lengst inni á meginlandi eða komin nokkra klukkutíma í akstri frá hafi þá líður mér líkamlega illa.

Ég veit ekki hvort þarna er eitthvað fornt Víkingablóð að tryggja að ég hafi alltaf flóttaleið 😀 eða hvort þetta nær enn lengra aftur í frummennskuna og er innbyggt í okkur að sjá vatn sem ávísun á mat, en samkvæmt vísindum og Internetinu þá er ég ekkert ein um að elska vatn.

Ekki að ég hafi þurft frekari sannanir en vísindin mæla með útsýni yfir hafið fyrir andann og núvitundina og svo hafa þau líka fundið jákvæð áhrif fyrir heilsuna.

Jákvæðu hliðarnar virðast óendanlegar en mest kom mér þó á óvart hversu svakalega gefandi vatnið er fyrir heilann, ekki bara fyrir nýrun og húðina.

Skál!