Um ábyrgð

Formaður og hluti stjórnar knattspyrnudeildar Tindastóls hefur sagt af sér og sent út yfirlýsingu þar sem þeir taka ábyrgð á sínum vinnubrögðum og segja af sér sem part af því að skapa frið um starfsemi félagsins.
Eins ósátt og ég var við framkomu Tindastóls þá ber ég virðingu fyrir fólki sem skilur hvernig ábyrgð virkar og axlar hana.
Ábyrgð er eitthvað sem fólk getur fengið úthlutað, en ef fólk axlar ekki ábyrgð þá stendur það ekki undir henni.

Ég sem Pírati ber ábyrgð á því að viðhalda grunngildin í öllum mínum störfum, hvort sem það kemur mér persónulega vel eða illa, hvort sem það kemur vinum mínum persónulega vel eða illa og hvort sem aðrir Píratar gera það eða ekki.

Ég var látin bera miklar ábyrgðir sem barn, byrjaði snemma að vinna og fékk stöðugt meiri ábyrgðir hjá mínum vinnuveitendum. Lengi vel hélt ég að það væri af því að ég væri svona dugleg, ég var mjög dugleg í vinnu. En síðar skildi ég að það var vegna þess að ég tók persónulega ábyrgð á því að verkin væru unnin.
Það að ég tæki persónulega ábyrgð á því að sendingar skiluðu sér, að humarkarið færi í kælinn og eyðilagðist ekki í sólinni, að viðskiptavinurinn fengi góða þjónustu og úrlausn ef eitthvað klikkaði.

Sú ábyrgðartilfinning sem mér var innrætt sem barn hefur fært mér miklar ábyrgðir á lífsleiðinni. Ég hef borið ábyrgð á annarra manna börnum, tekið ábyrgð á tugmilljóna verkefnum, borið ábyrgð á afkomu starfsmanna og fyrirtækja, axlaði ábyrgð fyrir Íslands hönd í Hruninu og bauð fram vinnu sem skilaði mér í starf hjá Forsætisráðuneytinu við að greiða úr upplýsingamiðlun en það var bara nýlega að ég áttaði mig á því að ég á þessari ábyrgðartilfinningu að þakka það að ég er á lífi.

Ég þurfti líka að taka ábyrgð á mínu eigin lífi og minni meðferð þegar hefðbundin krabbameinsmeðferð virkaði ekki og ég tók ábyrgð á því að finna lausnir sem gera það að verkum að ég er á lífi. Það var dálítið stórt þegar ég fattaði það.

Við berum öll ábyrgð á eigin lífi og ég hef ákveðið að eyða lífinu bara í hluti sem veita mér ánægju, svona fyrst að ég hef val.
Það veitir mér ánægju að skapa og breyta heiminum á jákvæðan hátt og það er nauðsynlegt í slíkri baráttu að hafa skýr grunngildi að vinna eftir.

Ég sem Pírati TEK ÁBYRGÐ og BER ábyrgð á því, rétt eins og allir Píratar, að vinna eftir Grunngildum flokksins og samþykktri stefnu.