Til stjórnar Tindastóls

Í Stundinni nú um helgina er sláandi umfjöllun um kynferðisbrot í litlu bæjarfélagi þar sem einn og sami strákurinn hefur reynt að þvinga – og þvingað – ungar stúlkur til kynlífs. Meðal annars stúlkur sem hann kynntist og þekkti í gegnum íþróttastarf en hann var ráðinn sem fyrirmynd sem liður í að bæta ímynd knattspyrnudeildar Tindastóls fyrir ekki svo löngu (þó eftir stuðningsyfirlýsingu félagsins við dæmdan kynferðisbrotamann, sem líklega hefur verið talin svo góð fyrir ímyndina).

Þrátt fyrir að fólk hjá félaginu vissi af þessari framkomu og hefði verið gert viðvart ákvað félagið að aðhafast ekkert fyrr en kvissaðist út að von væri á umfjöllun Stundarinnar um málið. Þá losaði stjórnin sig við hann í kyrrþey og hann flutti á brott, en þá hafa nú þegar horfið bæði úr íþróttastarfi og úr bæjarfélaginu nokkrar ungar stelpur vegna hans framkomu.
Félagið hefur ekki svarað neinu nema með yfirlýsingum og ætlar sér greinilega enn að vera andlitslaust þegar kemur að því að svara þolendum. Viðbrögðin eru staðlaður flótti.

Mér ofbauð svo að ég ákvað að senda þeim póst.

—————————————————

Til formanns og stjórnar félagsins

Sæl

Undanfarna mánuði hef ég átt samtal við nokkra þolendur úr hópi þeirra sem nýlega komu fram í Stundinni.

Viðbrögð ykkar og framkoma við þær í gegnum tíðina hefur valdið þeim gríðarlega mikilli vanlíðan og þið skuldið þeim ekki bara bætt vinnubrögð heldur afsökunarbeiðni fyrir stuðning ykkar við gerandann og aðra gerendur.
Aðgerðir ykkar og rangar áherslur hafa hrakið fjölda ungra stúlkna úr íþróttaiðkun og valdið ómetanlegu tjóni hjá stórum hóp sem leit á gerandann sem fyrirmynd meðal annars vegna ykkar stuðnings við hann. Þið forgangsröðuð honum framyfir þær og skömmin er YKKAR.

Þið áttuð að skrifa undir þessa yfrlýsingu sem manneskjur, ekki sem nafnlaus stjórn – þið eruð einstaklingar sem eigið að ber ábyrgð og eigið ekki að skrifa nafnlaust undir. Þið tókuð sjálf ákvörðun um að ráða þennan dreng til að bæta ímyndina.

Þið skuldið þessum þolendum afsökunarbeiðni og þið skuldið líka öðrum þolendum og þeim sem hafa kvartað afsökunarbeiðni fyrir að hafa ekki hlustað. Það þarf meira en þetta yfirklór sem þið hafið farið núna í með yfirlýsingum, það þarf fundi og samtal í bæjarfélaginu um hvað telst raunverulegt samþykki.

Ég vona að þið sjáið sóma ykkar í að halda fund þar sem þið biðjist opinberlega afsökunar og takið ábygð á ykkar þætti í málinu. Siðareglur og fögur loforð eru einskis virði ef þið raunverulega standið ekki með þolendum þegar á reynir.

Ég óska ykkar velfarnaðar sem betra fólki í framtíðinni. Vonandi ákveður fólk að læra af þessu og axla ábyrgð á eigin þætti í málinu.

Kv.
Þórlaug Ágústsdóttir
Stjórnmálafræðingur