Mannekla í leikskólum og frístund

Á hverju hausti berast fréttir af því að ástandið í ráðningum inn í grunnskóla, leikskóla og frístundastarf borgarinnar sé skelfilegt. Börnin okkar fá ekki þá kennslu sem þau eiga rétt á og/eða við viljum veita þeim og mér finnst það fullkomlega óásættanlegt.

Sem fulltrúi Pírata í meirihlutasamstarfi borgarinnar tók ég núna í febrúar síðastliðinni sæti sem áheyrnarfulltrúi og nú í september varð ég aðalfulltrúi í Skóla og frístundaráði Reykjavíkur.

Ég tek þetta starf alvarlega, áheyrnarfulltrúi og nú aðalmennska er meira en bara að sitja og fylgjast með að allt sé afgreitt eftir kúnstarinnar reglum. Ég ber ábyrgð á því með hinum í meirihlutanum að þau vandamál sem upp koma eða eru viðvarandi í kerfinu séu löguð og við þurfum að sækja peninga til ríkisins þegar það er ljóst að peningarnir sem fylgja duga ekki fyrir rekstrinum..

Ég tek það starf alvarlega að gera allt sem ég get til að tryggja að grunnskólar í Reykjavík séu leiðandi skólar á landsvísu og ég tek það alvarlega að “pönkast í kerfinu” og fylgja hlutum eftir fyrir hönd Pírata og borgarbúa þegar þess þarf líka.

Þegar ég fæ fyrirspurn foreldris um lélegt ástand á skólalóð þá sendi ég fyrirspurn á réttan aðila hjá borginni og fylgi því eftir að a) skólalóðin sé í viðunandi ástandi og b) sé hún það ekki þá fari hún á áætlun og c) að svara foreldrinu. Svo d) gerir maður sitt besta til að tryggja að það komi meiri peningar í reksturinn, í mínu tilviki með því að ræða við borgarfulltrúann okkar sem á sæti í forsætisnefnd sem sér um fjármálin og sjá hvort þar sé eitthvað svigrúm. Ég tek viðeigandi mál líka upp á reglulegum fundum meirihlutans þar sem allir fulltrúar meirihlutans hittast til skrafs og ráðagerða milli annarra verka.

Mér finnst gaman að vinna með börnum og það er óskaplega gaman að sjá hversu margir kennarar og frístundastarfsmenn hafa mikla ástíðu fyrir starfinu og hvað þau eiga margar gefandi stundir með börnunum. Það virðist oft gleymast hvað vinna með börnum er skemmtileg (og já stundum þreytandi líka) en hentar sérstaklega fyrir þá sem eru að sinna öðrum verkefnum t.d. eins og t.d. fyrir námsfólk að vinna í frístundinni.

Í samfélaginu eru miklu fleiri en þeir sem geta unnið 8 klukkutíma vinnu en það er líka mýgrútur af störfum sem þarf ekki að sinna í 8 klukkutíma á dag. Á sumum leikskólum eru starfsmannavandræði (svokallaður “skortur á mönnun”) rétt í blábyrjun dags milli 8 og 8:30 og annarstaðar í lok dags á milli 16 og 17 þegar 8-16 vaktin fer heim. Þarna vilja mjög margir leikskólastjórar fá að ráða inn manneskju í 1-2 tíma til að brúa bilið en finna ekki þessa starfsmenn – einfaldlega vegna þess að það er þensla í þjóðfélaginu og atvinnuleysi er bara 1% sem þykir efnahagskraftaverk á erlenda mælikvarða en heitir á mannamáli þensla.

Á sama tíma og okkur skortir sárlega menntað starfsfólk í hlutavinnu þá afnámu stjórnvöld persónuafslátt öryrkja svo nú skerðast bætur og lífeyrir krónu fyrir krónu þ.e.a.s. hver áunnin eyrir er dreginn strax af bótum.

Með þessu var verið að taka af allan hvata fyrir fólk með skerta starfsgetu til að starfa á vinnumarkaði yfir höfuð og í leiðinni var verið að auka enn á starfsmannavanda þeirra sem áður hafði þennan hóp í vinnu og vildi hafa þennan hóp í vinnu.

Mín pæling í launa og starfsmannamálum er þessi: Af því að borgin getur ekki flutt inn starfsfólk eins og ferðaiðnaður eða byggingariðnaður, né höfum við efni á að yfirborga – þessvegna verðum við að sækja starfsfólkið UTAN þess sem er skilgreint sem vinnumarkaður. Okkur vantar helling af fólki í hlutastörf og í námsfólki, listamönnum, einyrkjum/freelancers, öryrkjum og ellilífeyrisþegum finnum við ómælda þekkingu sem núna er ekki verið að nýta. Þessi hópur fær núna ekki að vinna, er refsað með lækkun á bótum króun á móti krónu EN það eru ákveðnar leiðir sem við getum samt farið framhjá því til að byrja. IMHO þá er það allavega þess virði að prófa.

Ef ég fengi að stjórna einhverju myndi borgin gera samning strax við ríkið til að reyna að virkja þennan hóp t.d. í gegnum átak eins og Virk því það vantar einmitt svo mikið af fólki sem getur unnið 2 – 4 klst á dag og ekkert endilega á hverjum degi t.d. mætti vinna með einu barni einn dag í viku í 2 tíma, nokkuð sem hentar mjög vel fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Hér má  lesa um þær aðgerðir sem voru samþykktar á síðasta fundi skóla og frístundaráðs (og eiga eftir að fá samþykki frá borgarráði sem fjármagnar og borgarstjórn sem ber lokaábyrgð).

Í stuttu máli er verið að grípa til aðgerða til að bregðast við starfsmannavanda á leikskólum og í frístund, ég segi ykkur meira um þessar aðgerðir þegar allt er orðið klappað og klárt.