Frk Lady-Boss

Ekkert hefur reynst mér jafn auðmýkjandi um ævina og það að verða öryrki, nema mögulega það að verða sjúklingur.

Hluti af þessari breytingu er vegna þess að ég er ekki lengur ég sjálf, ég hef ekki lengur sjálfstraustið mitt til framkvæmda eða endalausa orku og úthald í þær framkvæmdir. Reyndar man hausinn á mér ekki alltaf eftir því að líkaminn eigi ekki inni fyrir öllum plönunum og því lendi ég reglulega í því að gera eitthvað ofar minni getu sem leggur mig í rúmið eða baðkarið til lengri eða skemmri tíma. Að sumu leiti er það gott, það þýðir að ég er alltaf að færa mörkin, en það er ekkert endilega gott heldur að vera endurtekið að verða fyrir vonbrigðum. Sem betur fer eru samt hellingur af hlutum til að þakka fyrir líka og ég kem mér stöðugt á óvart með hvað ég get framkvæmt – ef aðstæðurnar og réttu græjurnar leyfa.

Það er semsagt sama prinsipp í gangi og ALLTAF – það gengur allt miklu bretra með réttu græjunum. Og núna gengur hreint út sagt stórkostlega. Ég gat áður ekki tekið nema 1-2 tíma fundi í það lengsta t.d. þegar ég sat í Framkvæmdaráði Pírata í fyrra, en núna get ég auðveldlega verið með á tvöfalt lengri fundum í SFS – einfaldlega af því að ég er núna í góðum stól sem hallar alveg útaf en ekki á köldum og hörðum plastkolli. Það besta er að sá nýji kostar það sama og venjulegur basic stóll.

Ég trúði því varla þegar ég gékk út í bíl eftir síðasta fjögurra tíma fund og fann “varla” fyrir bakverkjum – þökk sé Lady boss stólnum góða af Aliexpress.

Og nú heldur ferðalagið áfram, þessi færsla er skrifuð á nýtt laptop vinnuborð sem kom á Þorláksmessu því ef ég ætla að taka einhvern þátt í samfélaginu þá þarf það einfaldlega að gerast með hugvitsemi -og tillitsemi.

[óútgefið frá 2017]