Ættfræðigrúsk og nornaveiðar

Eitt það skemmtilegasta sem ég veit er að lesa góðar ævisögur. Þær eru yfirleitt miklu skemmtilegri en skáldsögur og persónurnar margvíðar og geta fleira en bara eitt eða tvennt.

Í vikunni rakst ég á formóður mína sem ég tengi undarlega við. Margrét Þórðardóttir var ákværð fyrir galdra eftir að hópur kvenna hafði froðufellt og hnigið í ómegin við messuhald í sveitinni.
Ákærurnar og flótti Margrétar, sem kölluð var Galdra-Manga, eru með ólíkindum en sagan segir að henni hafi verið drekt á Snæfellsnesi, sem getur ekki verið því hún finnst í manntali 1703 og er þá orðin allra kerlinga elst.

Nú gef ég mér að galdrar séu ekki raunverulegt fyrirbæri og að það sé býsna tilgangslaust að galdra flogakast í kerlingar í messu og tel sökina liggja hjá ákærendum og þeim sem ákváðu að losa sig á þennan hátt við þá sem voru óþægilegir á einhvern hátt og sögðu hættulegan sannleikann.

Svo ég vitni í Ólínu Þorvarðardóttur sem hefur skrifað mikið um galdra á Íslandi:
“Þessi bylgja galdraofsókna barst hingað til Íslands undir lok 16. aldar, og hún beindist fyrst og fremst að alþýðufólki. Prestarnir predikuðu um vald djöfulsins yfir manninum, og það varð til þess að fjöldi fólks varð óttasleginn. Fólk fór að trúa því, ef kýr drapst eða maður veiktist, að nágranninn ætti sök á því með göldrum. Þá vaknaði tortryggni og illt umtal sem um síður barst til eyrna sýslumanninum eða prestinum og endaði með því að viðkomandi var kærður. Eftir að einhver hafði fengið á sig galdraorð gat verið erfitt að hreinsa sig af því – því það voru sveitungarnir sem áttu að sverja fyrir dómstólum hvort hinn grunaði galdramaður var sekur eða saklaus. Og hver gat sagt til um það?

Satt að segja var þetta ekki ólíkt því sem gerist í eineltismálum nú til dags – og því ættu þessir atburðir að vera okkur umhugsunarefni til að læra af, enn þann dag í dag.”

Ég ber óstjórnlega virðingu fyrir Margréti sem var bæði formóður langömmu minnar og langafa og runnu þar saman afkomendur Galdra-Möngu í Þórlaugu Finnbogadóttur ömmu minni sem aldrei fékk að njóta sinna gáfna eða hæfileika, heldur glímdi alla tíð við gigt og afleiðingar vannæringar sem hún leið sem barn, því engin var mjólkin fyrir stúlknahópinn. Án þeirra þrautsegju og útsjónarsemi, stæði ég ekki hér, en fáir áar eru jafn ótrúlegir og Margrét.

Um Margréti segir Ólína: “Ógleymanleg er mynd þjóðsögunnhar af því þegar hún dregur drauginn á linda sínum og skvettir síðan yfir hann úr kirnunni. Þá er það ekki síður umhugsunarefni hversvegna þessi knáa og léttfætta kona sem “kvað kvenna best” slapp undan galdrabálinu og það í lögsagnarumdæmi ekki afkastaminni manns en Þorleifs Kortssonar. Eitthvað hefur hún haft til að bera sem gerði það að verkum að menn gátu sig hvergi hreyft undan augnaráði hennar; heilluðust af söng hennar, og a.m.k. tveir prestar lögðu æru sína í hættu við að liðsinna henni. Jafnvel sjálfur “brennuvargur” 17du aldar”, snerti aldrei hár á höfði hennar. Það varð, þvert á móti, hlutskipti þeirra sem urðu á vegi þessarar sérstæðu konu, að engjast sjálfir í logum þess báls sem hún virðist hafa kveikt innra með þeim.”

Hér er svo viðtal við Valdimar Björn Valdimarsson frá 1967 sem þá er greinilega kominn á háan aldur. Valdimar kemur með heilmikið af nýjum upplýsingum um Möngu t.d. að kona prestsins hefði verið látin þegar Manga kom á bæinn og það að hún hafi verið í manntalinu 1703 þá orðin 87 ára gömul. Engu að síður gékk sú saga við Djúp að Möngu hefði verið drekt í hylnum við Möngufoss, en fossinn er hár og tigulegur foss Norðan megin við Djúp og sést því víða að og ætti að vera þeim kunnur sem aka til Ísafjarðar. Það þykir ólíklegt að henni var drekt 87 ára, sér í lagi þar sem hún eignaðist börn sem komust á legg og náði þetta háum aldri skv. manntali.

Það að hún skuli hafa komist svona nálægt dauðanum og óréttlætinu en samt sloppið við aftöku án dóms og laga má teljast kraftaverk, en án þessa kraftaverks þá stæði ég ekki hérna í dag, brúkandi munn og óþægilegan sannleikann rétt eins og Margrét og fleiri formæður mínar, þakklát fyrir að njóta málfrelsisins.