Reynsla mín af LÍN

Í nýlegum umræðum á samfélagsmiðlum rifjaðist upp fyrir mér saga sem er vert að festa á prent. Ég var svo dofin og veik þegar LÍN var að fokka í mér 2013 að ég höndlaði ekki almennilega að spá í hvað það sem þau voru að gera var yfirgengilegt (svo var það eitthvað svo smávægilegt í samanburði við annað á þeim tíma). En þegar ég endurtók söguna í umræðum um daginn kveikti ég á hvað þetta er klikkað og deili sögunni hér með lesendum.

Ég flutti til Köben með manni og sonum 2009 og fór í MA skiptinám í Hafnarháskóla en það er lánshæft hjá LÍN. Á meðan ég var úti veikist ég af 3x af krabbameini og eftir tæplega 3 ára ólýsanlega erfiða baráttu gáfust læknarnir upp og sögðu mér að þeir gætu ekkert meira gert, og hófu líkandi meðferð sem gæfi mér “nogen half aar”.

Ég hafði nú engu að síður náð að klára rúmt ár í skólanum meðfram veikindum og þar sem okkur hjónin vantaði pening í fjölskyldureksturinn v. mikilla útgjalda sem þessu fylgdi (þó meðferðin sé ókeypis úti) tók ég lán hjá LÍN eins og ég gat upp á tæpar 2 milljónir. Við hjónin áttum eignir og ekki var farið fram á ábyrgðarmann.
Systir mín var tengiliðurinn við LÍN en seint á þessu tímabili flytur hún barnshafandi með mann og smábarn Seattle og fékk póstinn sinn afskaplega stopult með landspóstinum og það ferst fyrir að skrá nýjan tengilið fyrir mig, en ég fylgdist þó enn með tölvupóstinum og fékk það sem var sent á mig heima áframsent til Danmerkur.

Nú hjarna ég við öllum að óvörum (tók kraftaverkalyf utan kerfis, önnur saga fyrir annan dag) og er að bíða eftir síðustu aðgerðinni sumarið 2013 þegar ég fæ tölvupóst frá LÍN um að þeir hafi gjaldfellt lánið mitt vegna skorts á upplýsingum frá mér.
Lánið skuli nú greiðast til baka að fullu – ég átti semsagt ekki að fara að greiða af því (ég var tæknilega enn í námi) heldur átti greiða það allt strax til baka strax.
WTF! Þetta hljóta að vera mistök!

Neinei. Starfsmenn LÍN segjast hafa sent bréf á tengiliðinn og það sé ekki sitt vandamál að ég hafi ekki sinnt þessu en ég geti sent bréf á einhverja nefnd sem taki þetta fyrir og beðið um endurupptöku.

Á sama tíma fær systir mín bréfabunkann frá LÍN þar sem starfsfólkið heldur áfram að senda henni póst þar sem þau láta eins og það sé bara formsatriði að hún skrifi núna undir sem ábyrgðarmaður fyrir mig. Bréfin voru almennt orðuð og látið eins og “láðst hafi” að skrifa undir þessi veð sem aldrei var farið fram á af mér áður.

Ég hringdi í formann stúdentaráðs og fulltrúa nemenda í stjórn sem báðar sýndu máli mínu mikinn skilning en þær máttu sín lítils gegn kerfinu.

Þess má geta að LÍN lán erfast en synir mínir voru börn svo ekki var hægt að ganga á þá eða fyrrverandi eiginmanninn en á þessum tíma stóð ég líka í skilnaði, búin að missa bæði fyrirtækin, gjaldfella sjálfsskuldarábyrgðir og bankinn var að taka yfir húsið okkar og síðustu eignirnar eftir að leigjandinn hafði hætt að borga af húsinu og hóf gras- og hundaræktun í kjallaranum. Bankinn fékk svo það skemmtilega verkefni að moka þar út en með húsinu fóru síðustu eignirnar og ævistarfið.

Allt leit út fyrir að einu skuldirnar mínar, LÍN lánið upp á 2 milljónir, myndi verða til þess að ég færi í gjaldþrot áður en ég næði einusinni að komast á örorkubætur, áður en ég og læknarnir vissum yfir höfuð hvort ég myndi lifa nógu lengi að fara í gegnum gjaldþrot.

Að starfsfólk lögfræðideildar LÍN (þetta er fólk, ekki stofnun) héldi að það væri eitthvað á mig að sækja, eignalausa, tekjulausa og fárveika í umsjón líknardeildar er ofar mínum skilningi, en bréfunum til systur minnar um að gerast fríviljugur ábyrgðamaður linnti ekki.

Það vildi til að ég þekkti þáverandi menntamálaráðherra og aðstoðarmann hans frá fornu fari og gerði því eins og Íslendingar gera: hringdi í manninn og rakti raunir mínar.

Hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur, hann myndi fá aðstoðarmann sinn til að fara í málið sem þau gerðu.
Ég þurfti að skila inn einhverju smávægilegu til LÍN til viðbótar, nánast eins og sem dúsu til að einhverjum liði ekki eins og hann hefði fullkomlega tapað þarna inni í LÍN boxinu.

“Sigurinn” í málinu er sá að ég fæ núna að borga samviskusamlega af láninu mínu eins og aðrir viðskiptavinir LÍN.