Að lifa fyrir mig

Ég upplifi þetta sumar sem tímamótasumar, bæði fyrir mig og aðra.

Mér hefur enn eina ferðina verið ýtt út fyrir mín líkamlegu mörk sem hefur neytt mig í naflaskoðun. Naflaskoðun um það hver ég er án lyfja og veikinda og hver ég er án hlutverka og merkimiða. Sá sem getur tímabundið ekki hlaupið út af fótbroti er ekki fótbrotið sitt, viðkomandi er enn hinn sami en fótbrotið breytir hvað hann getur og gerir, hvaða kröfur eru gerðar á viðkomandi, en engum dettur í hug að manneskjan og fótbrotið séu eitt og hið sama.
Flestir þekkja fyrirbærið victim-blaming, þegar þolanda er kennt um eitthvað sem gerandi ber ábyrgð á en færri hafa spáð í fyrirbærinu patient-blaming. Ég hafði vissulega orðið vör við það sem ég hef kallað ‘fasíska tendensa’ sem er aðdáun sumra á ‘hinum sterka’ og hvernig réttlætisgyðjan er ekki blind fyrir mörgum heldur fer réttlætið eftir því hverjum er best að þjónka, við hvern viðkomandi er hræddur, hverjum hann skuldar greiða o.s.frv. Þegar veikindi eða áföll valda því að fólk hrapar í eignum, getu og status kemst það óþægilega fljótt að því á hverja er hægt að treysta og hverjir hafa andlegan þroska.

Patient blaming er fyrirbæri sem ég hef neyðst til að spá í af því að ég hef fundið fyrir því frá hinum og þessum í ólíklegustu aðstæðum; allt frá “grín” athugasemdum um að þar sem ég sé ekki lengur vinnandi/skattgreiðandi* þá sé mitt innlegg til málanna ekki jafn mikils virði og annarra til athugasemda um að ég hafi hugsað í mig krabbameinið (það er í dag hægt að bólusetja fyrir þessum “hugsunum” sem læknavísindin kalla HPV vírus).

Mörgum, meira að segja sjálfri mér, fannst það úr karakter ef ég hefði ekki með viljastyrknum getað sigrað krabbameinið, en það gat ég enganvegin. Ég reyndi. Fokk hvað ég reyndi en það sem þurfti til að batna voru réttu lyfin og rétta meðferðin.

Ég er heppin og lifði af. Vissulega óheppnari en þeir sem aldrei hafa þurft að díla við neitt, en umtalsvert heppnari en milljarðarnir sem hafa dáið ótímabærum og/eða þjáningarfullum dauða í gegnum tíðina. Grilljón sinnum heppnari en flestir forfeðra minna því ég hef nútímaþægindi, lífeyrissjóð og tækifæri.

Á sama tíma og ég er óendanlega þakklát hef ég verið hræðilega vanþakklát við líkamann minn. Ég hafði ekki áttað mig á því hvað lyfjagjöfin og sérstaklega geislarnir gera við líkamann. En í þarsíðustu viku fékk ég að sjá það á mynd og ég er eiginlega enn í sjokki.

Ég sá á mynd innan úr eigin líkama hvers vegna ég er með verki og hversvegna ég hef verið reglulega að þvinga mig af stað og í gegnum hluti sem ég raunverulega get ekki.

Ég var í svo miklu kapphlaupi annarsvegar að hafa tekjur og hinsvegar að breyta heiminum að ég ýtti sjálfri mér langt út fyrir það sem ég átti að bjóða mér uppá. Núna þegar ég er formlega að komast úr krabba-endurkomu-hættunni slaknar líka á þessari tilfinningu að ég “verði” að drífa mig að breyta heiminum. Það eru ekki lengur síðustu forvöð fyrir mig og ég hef leyfi til að lifa þessu lífi án þess að a) skara framúr b) breyta heiminum c) eyða ævinni í verkefni sem nýtast fyrst og fremst öðru fólki.

Ég er í formlegu bataprógrami þar sem mitt verkefni fram að næsta fundi um miðjan ágúst er að vera góð við sjálfa mig. Ekkert annað.
Og þetta hefur vafist dálítið fyrir mér, hvað það þýðir.

Sigrún ská-mágkona mín er snilllingur og hannyrðapönkari sem deilir sínum hugsunum og sköpunum á Twitter. Hennar bataferli hefur gefið mér svo mikið að hugsa um í mínu eigin bataferli og í dag veitti hún mér andagiftina að þessum pistli og næsta skrefi.

Í dag þarf ég ekki að gera neitt, ég má velja hvað ég geri og ég ætla að velja að vera til fyrir sjálfa mig. Tilgangur dagsins í dag er að njóta hans.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s